Hulda P aftur á Aðalstræti 85

Hulda P dvelur nú í góðu yfirlæti á aðalstræti 85.  Þær mæðgur, hún og Unnur Bergling fóru vestur í gær.

Í dag hafa þær eytt deginum við að skoða plássið og fara í heimsóknir. 

Kv. K


Hvað er hátíðlegra en Hrafnseyri á 17. júní?

Dagskrá 17. júní 2008

14:00-14:45 Messa: Biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson prédikar, séra Guðrún Edda Gunnarsdóttir sóknarprestur á Hrafnseyri þjónar fyrir altari.

15:00-15:05 Kynnir: Eiríkur Finnur Greipsson formaður Hrafnseyrarnefndar

15:05-15:25 Hátíðarræða dagsins: Sólveig Pétursdóttir fyrrv. ráðherra

15:30-16:00 Söngur: Kirkjukór Þingeyrar. Stjórnandi: Krista Sildoja. Ragnar Bjarnason við undirleik Þorgeirs Ástvaldssonar

16:00-17:00 Kaffihlaðborð

Glímumenn úr glímudeild Harðar munu sýna glímu.

Hestamenn úr hestamannafélaginu Stormi á Vestfjörðum verða með hesta og leyfa börnum að fara á bak. Einnig verður boðið upp á leiki fyrir börn.

17062008(019)


Frænkur og frændur eru frænkum og frændum best :)

Þetta er bara lúxus frí á Patró,samt svindl að Jóhann er ekki hérna líka, segir Steinn og er himinlifandi yfir að mamma hans er ekki á kafi í drullumdralli í Steininum eins og vanalega. Fjölskyldurnar á 85 voru svo vænar að lána okkur (mér og Steini) húsið sitt á meðan karlpeningurinn var á kafi í ryki við að gipsklæða loftin í Steininum. þeir nutu þó góðs af, var boðið í mat á kvöldin og var fært croissant og Rabba-vínarbrauð í morgunmat. Við fílum vistina vel og Steinn er búin að prófa að sofa í öllum rúmum í húsinu. Það var auðvitað númer eitt að prófa efri kojuna Wink .  Við þökkum kærlega fyrir okkur!! kveðja Gúa og Steinn

Svona eldar Óli ýsu.....

Suðan látin koma upp á vatni og salti í potti. Fiskurinn látinn í vatnið og þegar suðan kemur upp aftur er fiskurinn soðinn við vægann hita í 2 mínútur. Potturinn tekinn af hitanum og látinn standa á kaldri hellu í 12 - 15 mínútur.

Það er komið að þér Jóhann Wink.  Var Lundinn aldrei veiddur við Látrabjarg eins og þeir gera í Vestmannaeyjum?Whistling

kv/gúa 


Skipsminningar Steins

Gólfið heitir dekk, tappinn heitir negla, húsið heitir brú, holan heitir lest, handriðið heitir lunning, stöngin heitir mastur, nefið heitir stefni, undir skipinu heitir kjölur, aftan á skipinu heitir skutur, svefnherbergið heitir káeta.

Hefur þú einhverju við þetta að bæta Jóhann? Kveðja Steinn Ninja


Hvort okkar var meira í Steininum?

Ég hitti Jósef Gunnar (Sólrúnar Þorgeirs) á Patró um helgina. Hann kom í heimsókn í Steininn ásamt fjölskyldu og Gísla Þór frænda sínum. Við gátum rifjað upp skemmtilegar minningar um ömmu og afa og hvað það var notalegt að heimsækja þau. Gunni var viss um að hann hafi verið mest hjá þeim af okkur krökkunum, ég var viss um að það hafi verið ég sem var mest hjá þeim og við mundum hvorugt eftir að hitt hafi verið í heimsókn hjá þeim á sama tíma. Við erum bæði keppnisfólk (þegar við vorum saman í bekk í barnaskóla kepptum við um hæstu einkunirnar) og viljum nauðug játa okkur sigruð og reyndum að fá Gísla Þór til að skera út um hvort okkar hafi verið meira í Steininum. Gísli ákvað að vera ekkert að blanda sér í þetta og sagði pass. Við komumst þá að þeirri niðurstöðu að þegar við krakkarnir komum í heimsókn til þeirra þá hafi þau haft lag á að láta okkur líða eins og við værum einstök og eina barna barnið. Sjálfsagt eigum við barna börnin og barna, barna börnin öll svipaðar minningar. kv/gúa

ps. Eitt langar mig að vita. Ég held að ég og Gunni eigum það sameiginlegt að vera mjög eldhrædd og ég rek það til brunans í Steininum forðum daga. Hvað með ykkur hin?


Svartfuglsegg

Það er spurt um suðu á svartfuglseggjum.

Svartfugl er samheiti yfir sjófugla sem eru svartir og hvítir að lit og eiga sameiginlegt að lifa á sjó mestan hluta árs og verpa í sjávarbjörgum og strandurðum, forðast land nema um varptímann. Aðal fæða er ýmiskonar sílategundir, loðna, sandsíli og trönusíli svo eitthvað sé nefnt Til tegundarinnar teljast Langvía, með alsvartan haus og nef, ásamt litaafbrigðinu Hringvía með hvítan hring umhverfis augað og hvíta rák aftur úr hringnum. Stuttnefja, gjarnan nefnd Nefskeri við Látrabjarg, Álka, Lundi, Teista og Haftyrðill. Allar eru þessar fuglategundir há norrænar og verpa aðeins einu eggi, oftast svartdröfnóttu nema Lundinn hvítu. Varpstöðvar á Íslandi eru víða, en mestur er fjöldinn í Látrabjargi, þar verpir um 60-70% alls álkustofns heimsins að mestu á urðum undir bjarginu. Langvía  og litarafbrigðið Hringvía verpir um allt Látrabjarg á berum syllum oftast þétt, oft nokkur hundruð á sömu syllu, frá neðstu klettum að brún, nefið er svart, langt, mjótt og oddhvasst. Stærstu langvíuhöld í Látrabjargi eru Barðið og Miðlandahilla. Stuttnefja, Nefskeri  er með styttra og þykkara nef en Langvía og er auðþekkt frá Langvíu á hvítri rönd fram eftir nefrótinni, þaðan er kenninafnið Nefskeri komið, hún verpir í leirskriðum og flögum víða í Látrabjargi, oft í bland við Langvíu. Álka er auðþekkt á sínu stóra svarta kubbslega nefi með hvítri þverrönd um miðju. Lundi auðþekktur á gulu nefinu, hann er algengur víða um eyjar og fuglabjörg landsins, hann verpir í holu sem hann grefur í grassvörðinn, er víða á grónum þræðingum og brúnum Látrabjargs. Stærsta lunda byggð í bjarginu er í Undirhlíðum innan Djúpadals. Egg lundans er hvítt og var ekki tekið til átu, enda vand með farið, skurn er mjög þunnur. Ungi lundans gengur undir ýmsum nöfnum, vestra heitir hann kofa og var vinsæll til matar. Kofan var dreginn úr holu sinni með járnkrók nokkru áður en hún leitaði sjávar.Teista er nokkru minni en álka og lundi, alsvört með áberandi hvítar skellur á vængjum. Teistan verpir víða með ströndum landsins í fjöruurðum. Mjög stórt teistuvarp er í Flatey á Breiðafirði, þar eru hreiðrin auðfundin, númeruð vegna rannsókna. Haftyrðill hefur norrænust búsvæði  og verpir lítið við Ísland, eitthvað í Grímsey og Rauðanúp á Sléttu, stærstu varpsvæði haftyrðils eru norðarlega á Grænlandi. Algengust eru egg langvíu, stuttnefju og álku. Öll eru þau svartdröfnótt með mismunandi grunnlit, frá því að vera hvít að dökk brúnu. Egg stuttnefju og langvíu eru stærri en egg álku. Þegar svartfuglsegg er soðið er best að setja það í kalt vatn hita til suðu, láta sjóða í um 4-5 mínútur. Eggið á ekki að springa. Þegar skurn er brotinn er best að brjóta á þykkari enda þess, oftast er eggið nýtt og hvítan stinn en stundum er stropi í egginu, þá er best að hella honum af áður en eggið er etið. Ef eggið er það mikið stropað að komnar eru æðar undir skurnhimnuna er það ekki hættulegt og á ekki að aftra frá að borða eggið, sumum finnst slíkt egg betra, sé aftur á móti komin augu í eggið er rétt að skoða málið og athuga hvort ekki sé einhver viðlátinn sem er vanur að borða svartfuglsegg og skipta við hann. Mikið stropuð og unguð egg voru notuð í bakstur. Erfitt er að skyggna svartfuglsegg því skurnin er þykkur, það er þó hægt  með góðu ljósi, flokkast þá úr það sem ekki er nýtt. Eitt sinn þegar komið var heim á Patró eftir velheppnaða bjargferð til fjárafla fyrir Björgunarsveitina voru útbúnir stokkar með götum fyrir eggin, sterku ljósi var komið fyrir inni í stokknum, Þannig voru eggin flokkuð. Nokkuð mikið var af unguðum eggjum sem ekki var hægt að selja. Einhverjum datt þá í hug að gefa Halla bakara unguðu eggin, hann var ekki alveg viss hvort þau nýttust til baksturs en sagðist vilja prófa. Næstu daga voru til sölu á Patró rauðar jólakökur, það vissu fáir hver galdurinn að baki þessara sérlega góðu jólaka var. Þetta er svo gamalt leyndarmál það er fyrnt.

 

 


Það er gott að vera lítil – stundum

Já, ættin er ekki mikil um sig, í hvorugan legginn. Það kom sér vel um daginn. Ég var send til Parísar að vinna og þegar ég kom á hótelið, seint um kvöld eftir langan ferða- og vinnudag, kom í ljós að ég átti ekki pantað herbergi. Fyrirtækið sem ég var að vinna fyrir klikkaði á að staðfesta bókunina. Nú voru góð ráð dýr – en sem betur fer áttu þeir eitt laust herbergi og að þeirra sögn „huge“ herbergi fyrir fjóra.  Ég var auðvitað bara glöð – give it to me – mér var sk.. sama hvað það kostaði, ég var bara þreytt og langaði að halla mér eftir langan dag og var bara ánægð með að fá dýrasta herbergið á hótelinu og hugsaði með mér að kannski væri þetta lúxus herbergi með baði jey J En fyrsta sjokkið var í lyftunni, hún var svo lítil að ég ætlaði varla að komast inn og loka hurðinni með eina litla ferðatösku og fartölvu og herbergið oh my good! Það var svo lítið að það var ekki einu sinni hægt að fara inn á bað til að skipta um skoðun þar sem þar var ekki einu sinni pláss fyrir klósettsetu. En ég svaf samt vel á litla mjóa beddanum við suð í vespum og litlum mótorhjólum, frá  þröngum götum Parísar. Kvöldið eftir kom ég aðeins fyrr á hótelið og ákvað að hlaupa yfir götuna og fá mér að borða á litlum veitingastað (lítið hótel, lítil lyfta, lítið herbergi, lítill veitingastaður, lítil gata.... stór borg) . Þar fékk ég góðan mat og notalega þjónustu, ég spjallaði við þjóninn og spurði hvað hverfið héti sem ég væri í (þar sem ég hafði ekki haft tíma til að velta því fyrir mér). Hann sagði mér að ég væri stödd í miðju le Mariais hverfinu „The gay district“ – hommahverfi Parísar og ef ég hefði ekki tekið eftir því þá héti staðurinn Le Gayridon, þar sem eigandinn væri hommi. Já – sæll ekki hafði ég hugmynd um að það væri til gay hverfi í París, það útskýrði sætu sólbrúnu strákana í þröngu hvítu stuttermabolunum með V-hálsmálspeysurnar yfir axlirnar. Oh boy alltaf svona! Starfsmaður fyrirtækisins sem ég var að vinna fyrir sagði mér að þetta væri eitt vinsælasta hverfið meðal Parísarbúa til að fara út að borða og skemmta sér(fyrir alla konur og kalla). Ég mæli hiklaus með þessu hverfi – notalegt – skemmtilegt og öruggt hverfi, inni í miðri París en samt spotta frá ferðamannastraumnum http://www.parismarais.com/. kv/gúa

p.s Sigga - þetta er ekki mataruppskrift Wink og takk fyrir að skrifa í gestabókina -Fleiri mættu taka það sér til fyrirmyndar Smile Jóhann hvernig er best að elda svartfuglsegg? hint,hint Whistling


Steinbítur

Steinbítur var stundum kallaður bjargræðið. Að baki nafninu er þjóðsaga. Föruflokkar sóttu í verstöðvar í bjargarleit þegar harðæri var á landinu. Verstöðin á Brunnum hjá Hvallátrum fékk slíkar heimsóknir, enda gáfu vermennirnir  fólkinu steinbít sem að öðrum kosti var hent.. Svo brá við að fólkið gekk vel fram af steinbítsátinu, varð hann eftir það einn mestur nytjafiska á Vestfjörðum.

Steinbítur  er ekki fríður fiskur en góður til átu, sé hann veiddur frá vori til hausts þá hefur hann náð  góðum holdum á ný eftir hrygningu í september og oktober og tannfelli eftir hana. Aðal hrygningarstöðvar steinbíts eru djúpt undan suðurhluta vestfjarða. Heimkynni þessa fiskjar er allt norður Atlandshaf, suður til Biskajaflóa að austan og Þorskshöfða á austurströnd Bandaríkjanna að vestan.Heildar veiði á steinbít við Ísland mun vera um 20-30.000 tonn á ári.Þeir sem skoða gamlar verstöðvar taka eftir víðáttu miklum grjótgarðhleðslum, þetta eru garðar sem notaðir voru til fiskþurkunar, áður en farið var að salta fisk á Íslandi, sem var ekki fyrr en eftir miðja 18.öld, garðar þessir eru ávallt kallaðir steinbítsgarðar á Vestfjörðum. Allir landar þekkja hertan kúlaðan steinbít, hann er þurkaður í hjalli sem staðsettur er  á næðingsömum stað, áður fyrr nálægt sjó til að forðast flugu. Gæta verður þess að sól nái ekki til steinbítsins, við það þránar fitan og gerir hann óætan.Þegar steinbítur er flakaður er best að leggja hann þannig að bak snúi að þeim sem flakar, hausinn  til hægri.. Fyrst er hníf brugðið undir eyrugga og skorið að hnakka, síðan er hnífnum stungið í sárið við hrygginn, honum rennt grunnt aftur með hryggnum að sporði, síðan er tekið með fingrum fremst í flakið og skorið með hryggnum aftur að gotrauf, þar er hnífnum stungið í gegn og hann látinn renna aftur að sporði, þá er aftur hluti flaksins laus. Síðasti skurðurinn er aftur með kviðbeinagarðinum, til að losa flakið að fullu. Síðan er fiskinum snúið, síðara flakið skorið á svipaðan hátt. Yfirleitt er roðið tekið af flakinu fyrir matreiðslu, það er gert á þann hátt að roðið  snýr niður, haldið er aftast í flakið, grunnur skurður gerður þvert á það framan fingurgóms, hnífurinn látinn renna  eftir holdrosanum milli holds og roðs. Halda verður fast á móti þegar roð er dregið.Roð af steinbít var mikið notað til skæðagerðar enda einstaklega sterkt. .Matargerð úr steinbít er marvísleg, enda er nýr steinbítur einn albesti fiskur til átu sem völ er á. að öllum öðrum tegundum ólöstuðum. Marga steinbítsrétti hef ég smakkað, flestar góðar. Ein aðferð  stendur þó upp úr öllum öðrum, það er hin hefðbundna aðferð, þróuð af húsfreyjum þorpa og sveita þessa lands. Steiktur steinbítur í brúnni sósu með lauk. Einfalt  kjarngott og ljúfengt, þegar það þrennt fer saman, toppar matargerðarlistinn. Eftirfarandi klikkar ekki. Tvö flök meðalstór, roðlaus skorinn í hæfileg stykki.Einn stór laukur skorinn í skífur.Fiskikraftur og súputeningar.Salt, pipar og sósulitur Íslenskt smjör brætt á pönnu, nokkuð góða klípu.Fiskinum velkt upp úr hveiti, hann settur á vel heita pönnuna.Kryddað með salti og pipar, betra að hafa ljósan.Stykkjunum snúið við og laukurinn settur á pönnuna.Látið malla í góða stund.Vatni hellt á pönnuna, krafti og teningum bætt í látið malla í 5 mín Sósan þykkt með hveiti, sósulit bætt í. Sósan smökkuð og krafti bætt í eftir smekk. Þessi uppskrift er einföld, mál og vog óþörf.. Vel þess virði að prófa.JóhSva

Signu-pönnukökurnar hennar Möggu ömmu

Um leið og búið er að baka pönnukökur er þeim rúllað upp með sykri, raðað á disk og sykri stráð yfir milli laga. Pönnukökurnar eru síðan borðaðar kaldar (með puttunum ekki gaffli) og fljótandi sykurklístrið sleikt af puttunum. Þetta segir Stína systir að við krakkarnir höfum kallað signarpönnukökur og voru þær oft til í búrinu hennar Möggu ömmu. kv/gúa


Næsta síða »

Um bloggið

Eyrar

 

Eyrar

Bloggvinir

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Loft
  • Eldhus4
  • Eldhus3
  • Eldhus2
  • Eldhus1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.12.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband