Svartfuglsegg

Það er spurt um suðu á svartfuglseggjum.

Svartfugl er samheiti yfir sjófugla sem eru svartir og hvítir að lit og eiga sameiginlegt að lifa á sjó mestan hluta árs og verpa í sjávarbjörgum og strandurðum, forðast land nema um varptímann. Aðal fæða er ýmiskonar sílategundir, loðna, sandsíli og trönusíli svo eitthvað sé nefnt Til tegundarinnar teljast Langvía, með alsvartan haus og nef, ásamt litaafbrigðinu Hringvía með hvítan hring umhverfis augað og hvíta rák aftur úr hringnum. Stuttnefja, gjarnan nefnd Nefskeri við Látrabjarg, Álka, Lundi, Teista og Haftyrðill. Allar eru þessar fuglategundir há norrænar og verpa aðeins einu eggi, oftast svartdröfnóttu nema Lundinn hvítu. Varpstöðvar á Íslandi eru víða, en mestur er fjöldinn í Látrabjargi, þar verpir um 60-70% alls álkustofns heimsins að mestu á urðum undir bjarginu. Langvía  og litarafbrigðið Hringvía verpir um allt Látrabjarg á berum syllum oftast þétt, oft nokkur hundruð á sömu syllu, frá neðstu klettum að brún, nefið er svart, langt, mjótt og oddhvasst. Stærstu langvíuhöld í Látrabjargi eru Barðið og Miðlandahilla. Stuttnefja, Nefskeri  er með styttra og þykkara nef en Langvía og er auðþekkt frá Langvíu á hvítri rönd fram eftir nefrótinni, þaðan er kenninafnið Nefskeri komið, hún verpir í leirskriðum og flögum víða í Látrabjargi, oft í bland við Langvíu. Álka er auðþekkt á sínu stóra svarta kubbslega nefi með hvítri þverrönd um miðju. Lundi auðþekktur á gulu nefinu, hann er algengur víða um eyjar og fuglabjörg landsins, hann verpir í holu sem hann grefur í grassvörðinn, er víða á grónum þræðingum og brúnum Látrabjargs. Stærsta lunda byggð í bjarginu er í Undirhlíðum innan Djúpadals. Egg lundans er hvítt og var ekki tekið til átu, enda vand með farið, skurn er mjög þunnur. Ungi lundans gengur undir ýmsum nöfnum, vestra heitir hann kofa og var vinsæll til matar. Kofan var dreginn úr holu sinni með járnkrók nokkru áður en hún leitaði sjávar.Teista er nokkru minni en álka og lundi, alsvört með áberandi hvítar skellur á vængjum. Teistan verpir víða með ströndum landsins í fjöruurðum. Mjög stórt teistuvarp er í Flatey á Breiðafirði, þar eru hreiðrin auðfundin, númeruð vegna rannsókna. Haftyrðill hefur norrænust búsvæði  og verpir lítið við Ísland, eitthvað í Grímsey og Rauðanúp á Sléttu, stærstu varpsvæði haftyrðils eru norðarlega á Grænlandi. Algengust eru egg langvíu, stuttnefju og álku. Öll eru þau svartdröfnótt með mismunandi grunnlit, frá því að vera hvít að dökk brúnu. Egg stuttnefju og langvíu eru stærri en egg álku. Þegar svartfuglsegg er soðið er best að setja það í kalt vatn hita til suðu, láta sjóða í um 4-5 mínútur. Eggið á ekki að springa. Þegar skurn er brotinn er best að brjóta á þykkari enda þess, oftast er eggið nýtt og hvítan stinn en stundum er stropi í egginu, þá er best að hella honum af áður en eggið er etið. Ef eggið er það mikið stropað að komnar eru æðar undir skurnhimnuna er það ekki hættulegt og á ekki að aftra frá að borða eggið, sumum finnst slíkt egg betra, sé aftur á móti komin augu í eggið er rétt að skoða málið og athuga hvort ekki sé einhver viðlátinn sem er vanur að borða svartfuglsegg og skipta við hann. Mikið stropuð og unguð egg voru notuð í bakstur. Erfitt er að skyggna svartfuglsegg því skurnin er þykkur, það er þó hægt  með góðu ljósi, flokkast þá úr það sem ekki er nýtt. Eitt sinn þegar komið var heim á Patró eftir velheppnaða bjargferð til fjárafla fyrir Björgunarsveitina voru útbúnir stokkar með götum fyrir eggin, sterku ljósi var komið fyrir inni í stokknum, Þannig voru eggin flokkuð. Nokkuð mikið var af unguðum eggjum sem ekki var hægt að selja. Einhverjum datt þá í hug að gefa Halla bakara unguðu eggin, hann var ekki alveg viss hvort þau nýttust til baksturs en sagðist vilja prófa. Næstu daga voru til sölu á Patró rauðar jólakökur, það vissu fáir hver galdurinn að baki þessara sérlega góðu jólaka var. Þetta er svo gamalt leyndarmál það er fyrnt.

 

 


Athugasemdir

1 identicon

Svona eiga sko uppskriftir að vera  kv/gúa

Gúa (IP-tala skráð) 26.5.2008 kl. 23:42

2 identicon

Hvenær verpir svartfuglinn?

Kjartan (IP-tala skráð) 27.5.2008 kl. 22:27

3 Smámynd: Eyrar

Það er þetta með varptímann, hann er mismunandi eftir tegundum. Langvía verpir í lok 5. viku sumars og upphafi  þeirrar 6. stuttnefja og álka viku síðar. Þegar farið var í eggsig í Látrabjarg var fyrst farið í lok 5. viku og tekið það sem komið var af langvíueggjum, síðan farið aftur á sömu höld nokkrum dögum seinna, þá var hægt að fá nýorpin egg langvíu, stuttnefju og álku, sem voru að hefja varp. Teistan verpir í 5. viku sumars, aðalfæða hennar er sprettfiskur ( var kallaður skerjasteinbítur í minni heimabyggð) Haftyrðill er efalaust seinna á ferð enda hánorrænn. Ég hef aðeins einu sinni séð haftyrðil á eggi það var í Rauðanúp kalda vorið 1979 það var um miðjan júní og stórar fannir yfir mest öllu landi það norðurfrá.

Það væri gaman að fá góða uppskrift að eggjaköku sem mikið voru bakaðar af húsmæðrumí Rauðasandshrepps úr stropuðum eggjum, sennilega er það sem kallað var eggjakaka sama og nú er nefnt ommeletta.

Eyrar , 28.5.2008 kl. 13:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Eyrar

 

Eyrar

Bloggvinir

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • Loft
  • Eldhus4
  • Eldhus3
  • Eldhus2
  • Eldhus1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.12.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband